1. maí er baráttudagur launafólks!

Get ekki orða bundist en að tjá mig aðeins um daginn. Flottur fyrsti maí, fjölmenn ganga og alltaf jafn skemmtilegt að þramma í takt niður Laugaveginn.

Langar samt að segja að ég er yfir mig fúl og hneyksluð á grænu göngunni. Baráttuganga launafólks hefur nú verið gengin í 90 ár og ætti ekki að koma neinum á óvart sem skipuleggur viburði hér í borg. En skipuleggjendur grænu göngunnar voru í dag eins og sníkjudýr og héngu utan í og aftan í göngunni og klufu hana svo í lokin! 1. Maí nefndin í Reykjavík og stéttarfélögin eru búin að leggja mikla vinnu í skipulag dagsins. Það eru ótal vinnustundir á bak við þennan dag. Því er það mikil óvirðing fyrir málstað þeirra sem skipuleggja daginn að koma svona fram. Mér finnst undanlegt að borgaryfirvöld skuli leyfa tvo stóra útifundi með nokkurra metra millibili í miðbænum á sama tíma, ég geri ráð fyrir að leyfi þurfi til að halda slíka fundi. Það hefði svo auðveldlega veri hægt að gera þetta öðruvísi og ég get ekki ímyndað mér annað en fjölmargir hefðu getað hugsað sér göngu fyrir umhverfismál og vel hefði verið mætt í slíka göngu og því var algjör óþarfi að „stela“ deginum frá verkalýðsfélögunum. Getið þið ímyndað ykkur viðbrögðin ef svona stór hópur hefðir hengt sig aftan í og utan á t.d. Gay pride gönguna og klofið hana svo á leiðinni? Það hefði allt orðið vitlaust og með réttu, því þetta var hinn ömurlegasti gjörningum hjá grænum í dag og mér finnst afar slæmt að fólk sé með þessum móti neytt til að taka afstöðu annað hvort með launafólki eða umhverfismálum – er ekki æskilegra að fólk styðji bæði? Sem betur fer 1. Maí gangan stór og vel heppnuð og mikill fjöldi fólks hlustaði á tónlist og ræður  á Ingólfstorgi undir fánaborginnig og naut dagsins. Ég vona hins vegar að uppákoma eins og þessi endurtaki sig ekki!

 


Mömmur geta víst verið forsetar!

Þessa dagana er mikið rætt um forsetakjör, sem mér finnst gaman, því ég er alltaf í essinu mínu í kringum allar kosningar. Þá upplifi ég svo sterkt hversu mikil áhrif við fólkið í landinu getum haft. Mér finnst margir forsetaframbjóðendur nú mjög frambærilegir en ég hef fyrir löngu gert upp hug minn, ég ætla að kjósa Þóru Arnórsdóttur, unga, sterka og klára konu sem hæfir nýja Íslandi.

Í umræðunni um næsta forseta hefur eitt komið mér verulega á óvart sem ég verð að deila með ykkur. Ég hef nefnilega heyrt ótrúlegasta fólk halda því fram að móðir ungra barna geti ekki verið forseti og eigi að vera hjá börnum sínum. Í hvert skipti verð ég gjörsamlega orðlaus! Ég spyr mig  - hefur jafnréttisbarátta síðustu ára engu skilað? Erum við nákvæmlega á sama núllpunkti og áður? Mega mömmur ekki vera forsetar? Er það málið? Er ég sem kona og móðir ekki gjaldgeng í ákveðin störf og embætti? Verð ég kannski bara að sitja stillt og bíða, þangað til börnin eru farin að heiman og gráu hárin komin?

Eigum við þá ekki bara að ganga alla leið og breyta kjörgengisaldrinum – hafa einn aldur fyrir karla og annan fyrir konur? Karlar 35 ára og eldri mega bjóða sig fram til forseta burtséð frá fjölskyldustærð og aldri barna þeirra, en konur eru vinsamlegast beðnar um að hinkra í tíu ár – þær mega bjóða sig fram til forseta 45 ára og eldri, að því gefnu að börnin séu uppkomin! Er þetta í alvörunni Ísland í dag?  Við höfum sannarlega átt flottan kvenforseta, sem einnig var mamma en það virðist samt ekki hafa breytt þessum viðhorfum.

Svei mér þá, það er ótrúlegt hvað Ísland getur hreykt sér hátt í "jafnréttistölfræðinni" en liggur svo á botninum í viðhorfunum. Þetta er svona með launamun kynjanna líka, það beinlínis eins og hann sé yfirnáttúrlegur og það sé alls ekki hægt að breyta honum. Og nú sjáum við svart á  hvítu að það sama virðist gilda um konur í embætti. Forsetaembættið virðist nefnilega ennþá bara fyrir karla og eldri konur! Ég trúi því ekki að við ætlum að láta þetta viðhorf ráða úrslitum? Ætlum við að frekar að kjósa enn og aftur karlinn sem nú er kominn á sjötugsaldur? Ætlum við í alvörunni að hafa sama forsetann í tuttugu ár enn? Ætluðum við ekki að breyta einhverju? Nýja Ísland hvað?


Ljónheppin þakkar fyrir sig!

Ég er svo ljónheppin í lífinu að eiga góðar vinkonur sem ég trúi, virði og treysti, treysti betur en öllu öðru. Þessar vinkonur hjálpa mér stundum að hafa taumhald á mér og vera almennileg manneskja.

Þegar ég var að stíga fyrstu sporin í félagsmálapólitíkinn lá mér stundum svo margt á hjarta að ég átti það til að iða og ærast í stólnum á miðjum virðulegum fundi. Og oftar en ekki stóð ég upp eða gjammaði áður en ég hugsaði.  Þetta heitir víst á góðu stjórnandamáli "extróvert personality" - ef þið gúgglið það fáið þið nákvæma lýsingu á undirritaðri. Á síðari árum hef ég lært að hemja mig örlítið þó sumum finnist eflaust að gera mætti betur. Ég man eftir því að fyrir tuttugu árum þegar við sátum hópur góðra kvenna og stofnuðum byltingarkennt kvennaráð innan stéttarfélagspólitíkurinnar að eldmóðurinn varð stundum til að mér sortnaði fyrir augum. Þá var gott að eiga góða vinkonu sem oftar en ekki lagði lófann þéttingsfast á hnéð á mér og minnti mig þannig á að halda aðeins aftur af mér. Enn þann dag í dag þegar ég lendi í aðstöðu þar sem mér hættir til að missa mig finn ég þrýstinginn af lófanum þegar á þarf að halda. Takk fyrir það vinkona.

En það er ekki bara æsingurinn og eldmóðurinn sem undirrituð þarf stundum aðstoð við, heldur er líka gott að geta treyst á það að góðar vinkonur bendi konu á skapgerðarbresti, ósanngirni og almenn leiðindi. Í dag kom til mín vinkona sem er ein þessara sem ég telst ljónheppin að eiga. Hún sagði mér það umbúðalaust að ég væri búin að vera afspyrnu leiðinleg, neikvæð, ósanngjörn og geðstirð upp á síðkastið. Af því að við þekkjumst vel og af því að ég treysti og trúi hennar orðum tók ég mark á henni, og þegar ég hugsa um það þá er það aldeilis hárrétt hjá henni. Ég er svei mér þá búin að vera hundleiðinleg svo til alla vikuna og jafnvel miklu lengur. Eftir nokkurra mínútna umhugsun var eins og létti yfir mér og vegna orða þessarar góðu vinkonu ákvað að svona gengi þetta bara ekki lengur og ákvað að gera allt sem í mínu valdi stæði til að breyta um skap! Takk fyrir góða vinkona.


Er Stöð 2 komin á kaf í kosningabaráttu Ólafs Ragnars?

Það má vel vera að ég sé svolítið sein til, en er enn að velta fyrir mér fyrstu frétt stöðvar 2 í gærkvöldi um foresetakosningar.

Þar við tekinn saman mögulegur kostnaður við forsetaframboð og sagt sem svo að þeir sem ætluðu að bjóða sig fram gegn sitjandi forseta gerðu sér sko enga grein fyrir kostnaðinum sem því fylgir!  Þessu fylgdi viðtal við við einhvern mann (almannatengil minnir) sem fullyrti að forsetaframboði fylgdi kostnaður upp á tæpar 30 milljónir króna. Á skjánum birtust svo tölur um ýmsan kostnað eins og starfsmannakostnað, skrifstofukostnað og fleira. Eitt atriðið var tiltekið sem “annað” og hljóðaði upp á 6 milljónir. Fréttakonan greindi grafalvarleg frá því að inn í þeim kostnaði væri til dæmis klipping! Fáránleiki fréttarinnar varð fullkominn þegar almannatengillinn svokallaði sagði síðan með íbyggnu glotti að facebook myndi svo ekki hjálpa til  við að gera kostnaðinn minni, facebook byði nefnilega ekki upp á stafsetningarleiðréttingarforrit !

Hvaða bull var þetta eiginlega? Hvað er að koma fyrir fréttamennsku í landinu? Hver var tilgangur fréttarinnar? Að fá frambjóðendur til að hætta við framboð? Til að örugglega enginn stuggi við sitjandi forseta? Hvert varð eiginlega um lýðræðið?

Fyrst velti ég fyrir mér hvort þetta væri grin, hvort væri búið að flýta 1. apríl. En svo reyndist því miður ekki vera. Ég vil leyfa mér að fullyrða (sem einn almannatengill gegn öðrum) að kostnaður við forsetaframboð þarf bara alls ekki að hljóða upp á 26 milljónir. Svo ég hvet ALLA þá sem einhvern tímann hafa gælt við hugmyndina um að vera forseti að bjóða sig fram, og það strax!

Þetta viðhorf finnst eflaust mörgum fullkomlega óábyrgt  - að etja fólki út í kostnað og ég tali nú ekki um kostnaðinn sem VIÐ þjóðin þurfum að bera af kosningum sem slíkum. Ég svara því elsku vinir að lýðræðið er dýrt. Því fylgir alls konar vinna og vesen og það kostar alveg helling  - en ég vil það samt!

Kostnað við forsetakosningar sem og aðrar kosningar er sjálfsagt mál að fjalla um. Hefði kannski verið nær í þessari frétt að fjalla um það hvort ekki væri við hæfi að stilla kostnaði við forsetaframboð í hóf? Hafa til dæmis einhverjar reglur eða viðmiðanir til að fara eftir. Því varla viljum við að peningarnir einir ráði því hver situr á forsetastóli? Með hæfilegum reglum og viðmiðunum mætti til dæmis tryggja jafnari umfjöllun og auglýsingu þannig að kjósendum í landinu gæfist kost á að kynna sér alla frambjóðendur – jafnt. Hefði það kannski verið gáfulegri frétt fyrir svo stóran fréttamiðil sem Stöð 2 er?


Loksins Loksins !

... viltu fá áreiðanlega og stöðugan rekstur ??? Ráddu konu !

Þetta verða nýju skilaboðin á NÝJA Íslandi :) 

 

Til hamingju með Elín :)


mbl.is Nýr bankastjóri Landsbankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

... og hvað skyldi það svo KOSTA ríkið ef börnin okkar fengju ekki menntun?

Svona tölfræði um það hvað grunnskólanemendur KOSTI ríkið er bara bull. Ég sem er annars mjög hrifin af tölfræði gef ekki mikið fyrir þetta nema sjá jöfnuna hinum megin frá líka.

Ímyndum okkur veskið hjá ríki án menntaðra einstaklinga ! Hvað myndi það KOSTA ríkið ef börnin okkar fengju ekki menntun ... ég bara spyr ! ?


mbl.is Hver grunnskólanemandi kostar sveitarfélög 1 milljón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

... fullorðnum ... eða fullum orðnum :)

Hvernig má þetta vera? Er þetta lagalega framkvæmanlegt? Að banna aðgang allra yngri en 23 ára,nema í fylgd með fullorðnum? .... má þá 22 ára koma með einum 19 ? Er maður/kona ekki orðinn fullorðin/n samkvæmt landslögum 18 ára ?

 

 

... sumar fréttir eru bara skrítnar. Þetta hljómar svolítið eins og lögin sem ,,banna" giftingar útlendinga yngri en 24 ára ! Hvort tveggja jafn fáránlegt  og stenst varla mannréttindalög.


mbl.is Yngri en 23 ára bannað að tjalda nema í fylgd með fullorðnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af ökukennurum og leigubílstjórum

Alveg passlegt að blogga þetta einu sinni í mánuði og segja þá bara sögur af öðrum, ætli það sé ekki óhætt ? Verð að spyrja Egil!

Nema hvað. Um hádegisbilið í dag þurfti ég að taka leigubíl á fund út í Háskóla, ég fór upp í bílinn í hlíðunum og þegar við vorum að bruna eftir Miklubrautinni sagði leigubílstjórir sí svona upp úr þurru, niðursokkinn í aksturinn ... svona svona litla asíska kona farðu nú frá !" Ég brosti út í annað við að heyra þessa athugasemd sem var sögð í sérlega mjúkum tóni, og við það fannst manninum hann greinilega að útskýra fyrir mér málið. Þannig var nefnilega mál með vexti sagði hann mér í trúnaði að hann þekkti vel ökukennara sem hann keyrði oft og sá hafði sagt honum að Asíubúar þyrftu að meðaltali 200 ökutíma á meðan við hér á Íslandi þyrftu þetta 10-20. Þannig væri nefnilega að heilinn í þeim væri eitthvað öðruvísi ! ... ég verð að viðurkenna að ég gjörsamlega missti andlitið og fyrst hélt ég að maðurinn væri að reyna að segja brandara ... en nei svo var ekki ! Ég hef nú heyrt ýmislegt í starfi mínu fyrir Alþjóðahús en svei mér þá ... ekkert eins fáránlega einfeldningslegt eins og þetta. ... mín viðbrögð ? Nú ég spurði auðvitað manninn hvort hann tryði öðru eins andsk... bulli og þessu ? neiiiiiii, viðurkenndi hann, eins og hann væri samt ekki alveg viss. Svo sagði ég honum frá því hvað ég ynni við ... að ég starfaði við fordómafræðslu fyrir Ahús og spyrði hann hvort ég mætti ekki nota dæmið í kennslu einhvern daginn ... það væri bara einhvern veginn svo borðleggjandi !
 


ung, eldri elst !

Suma daga er maður bara meira miðaldra en aðra ... allir sem ég hitti í dag voru (og eru náttúrulega enn) fæddir 1980 !!!!!  Ég lenti á kjaftatörn við leigubílstjóra fyrir klukkan átta í morgun (ávani sem ég erfði eftir föður minn sem talaði alltaf við alla !) - og var í einhverju ofurhversdagslegu spjalli að vitna til einhvers úr æskunni, þ.e. æsku sem ég hélt að væri ca samhliða, nema hvað, leigubílstjórinn snéri sér sármóðgarðu við og sagði ,, jú kannski þegar þú varst ung, en þetta var ekki svona þegar ég var í skola ! ...  hann var náttúrulega fæddur greyið 1980 og ég var að vitna til einhvers sem gerðist um miðja síðustu öld ... !   

 

... held ég fari snemma í háttinn, (enda svo miðaldra!) á flug kl. 7 til Hafnar ... nei ekki Kaupmannahafnar því miður, heldur Hafnar í Hornafirði ! ... arrrg hvenær kemur þetta jólafrí eiginlega 

Sætir ormar á útleið :)

DSC02093


... réttar skoðanir og rangar!

jæja, ég er búin að læra eitt í vikunni ... eða reyndar tvennt, nr. 1 að það er i alvörunni fólk til sem les bloggið mitt ... svei mér ef ég er ekki bara dáldið hissa svona miðað við hversu fáar og ómerkilegar færslurnar eru og nr 2 það eru til réttar skoðanir og rangar í heiminum.

Er búin að fá mikil viðbrögð við blogginu mínu um karlmennsku og pólitískan rétttrúnað og gusuna sem ég send Silfrinu ... fékk meðal annars sendan póst þar sem mér var tjáð að skoðun mín á málinu væri einfaldlega röng ! ... og þá hafiði það, það er til réttar og rangar skoðanir ! Galdurinn er svo líklegast að vita hverjir það eru í hvert sinn sem gefa út stimpilinn ,,rétt" og ,,rangt" ... mín ágiskun væri ... hvítir karlar um fimmtugt! og hana nú! 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband