Mömmur geta víst verið forsetar!

Þessa dagana er mikið rætt um forsetakjör, sem mér finnst gaman, því ég er alltaf í essinu mínu í kringum allar kosningar. Þá upplifi ég svo sterkt hversu mikil áhrif við fólkið í landinu getum haft. Mér finnst margir forsetaframbjóðendur nú mjög frambærilegir en ég hef fyrir löngu gert upp hug minn, ég ætla að kjósa Þóru Arnórsdóttur, unga, sterka og klára konu sem hæfir nýja Íslandi.

Í umræðunni um næsta forseta hefur eitt komið mér verulega á óvart sem ég verð að deila með ykkur. Ég hef nefnilega heyrt ótrúlegasta fólk halda því fram að móðir ungra barna geti ekki verið forseti og eigi að vera hjá börnum sínum. Í hvert skipti verð ég gjörsamlega orðlaus! Ég spyr mig  - hefur jafnréttisbarátta síðustu ára engu skilað? Erum við nákvæmlega á sama núllpunkti og áður? Mega mömmur ekki vera forsetar? Er það málið? Er ég sem kona og móðir ekki gjaldgeng í ákveðin störf og embætti? Verð ég kannski bara að sitja stillt og bíða, þangað til börnin eru farin að heiman og gráu hárin komin?

Eigum við þá ekki bara að ganga alla leið og breyta kjörgengisaldrinum – hafa einn aldur fyrir karla og annan fyrir konur? Karlar 35 ára og eldri mega bjóða sig fram til forseta burtséð frá fjölskyldustærð og aldri barna þeirra, en konur eru vinsamlegast beðnar um að hinkra í tíu ár – þær mega bjóða sig fram til forseta 45 ára og eldri, að því gefnu að börnin séu uppkomin! Er þetta í alvörunni Ísland í dag?  Við höfum sannarlega átt flottan kvenforseta, sem einnig var mamma en það virðist samt ekki hafa breytt þessum viðhorfum.

Svei mér þá, það er ótrúlegt hvað Ísland getur hreykt sér hátt í "jafnréttistölfræðinni" en liggur svo á botninum í viðhorfunum. Þetta er svona með launamun kynjanna líka, það beinlínis eins og hann sé yfirnáttúrlegur og það sé alls ekki hægt að breyta honum. Og nú sjáum við svart á  hvítu að það sama virðist gilda um konur í embætti. Forsetaembættið virðist nefnilega ennþá bara fyrir karla og eldri konur! Ég trúi því ekki að við ætlum að láta þetta viðhorf ráða úrslitum? Ætlum við að frekar að kjósa enn og aftur karlinn sem nú er kominn á sjötugsaldur? Ætlum við í alvörunni að hafa sama forsetann í tuttugu ár enn? Ætluðum við ekki að breyta einhverju? Nýja Ísland hvað?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband