Ljónheppin þakkar fyrir sig!

Ég er svo ljónheppin í lífinu að eiga góðar vinkonur sem ég trúi, virði og treysti, treysti betur en öllu öðru. Þessar vinkonur hjálpa mér stundum að hafa taumhald á mér og vera almennileg manneskja.

Þegar ég var að stíga fyrstu sporin í félagsmálapólitíkinn lá mér stundum svo margt á hjarta að ég átti það til að iða og ærast í stólnum á miðjum virðulegum fundi. Og oftar en ekki stóð ég upp eða gjammaði áður en ég hugsaði.  Þetta heitir víst á góðu stjórnandamáli "extróvert personality" - ef þið gúgglið það fáið þið nákvæma lýsingu á undirritaðri. Á síðari árum hef ég lært að hemja mig örlítið þó sumum finnist eflaust að gera mætti betur. Ég man eftir því að fyrir tuttugu árum þegar við sátum hópur góðra kvenna og stofnuðum byltingarkennt kvennaráð innan stéttarfélagspólitíkurinnar að eldmóðurinn varð stundum til að mér sortnaði fyrir augum. Þá var gott að eiga góða vinkonu sem oftar en ekki lagði lófann þéttingsfast á hnéð á mér og minnti mig þannig á að halda aðeins aftur af mér. Enn þann dag í dag þegar ég lendi í aðstöðu þar sem mér hættir til að missa mig finn ég þrýstinginn af lófanum þegar á þarf að halda. Takk fyrir það vinkona.

En það er ekki bara æsingurinn og eldmóðurinn sem undirrituð þarf stundum aðstoð við, heldur er líka gott að geta treyst á það að góðar vinkonur bendi konu á skapgerðarbresti, ósanngirni og almenn leiðindi. Í dag kom til mín vinkona sem er ein þessara sem ég telst ljónheppin að eiga. Hún sagði mér það umbúðalaust að ég væri búin að vera afspyrnu leiðinleg, neikvæð, ósanngjörn og geðstirð upp á síðkastið. Af því að við þekkjumst vel og af því að ég treysti og trúi hennar orðum tók ég mark á henni, og þegar ég hugsa um það þá er það aldeilis hárrétt hjá henni. Ég er svei mér þá búin að vera hundleiðinleg svo til alla vikuna og jafnvel miklu lengur. Eftir nokkurra mínútna umhugsun var eins og létti yfir mér og vegna orða þessarar góðu vinkonu ákvað að svona gengi þetta bara ekki lengur og ákvað að gera allt sem í mínu valdi stæði til að breyta um skap! Takk fyrir góða vinkona.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband